Thursday, January 26, 2012

Innbakaður grænmetishleifur með púrtvínssósu



Fann loks fína mynd af innbakaða hleifnum góða sem ég geri yfirleitt á Gamlárskvöld og um páska. Geri hleifinn líka stundum fyrir góða gesti, kannski dálítið til að sýna fram á að það er líka hægt að gera sparílegan mat með klassísku meðlæti eins og fólk td. fær sér með læri, hrygg og svo um jól. Hef prófað hnetusósu og sveppasósu með en þessi sósa er líka skemmtileg viðbót. Hvernig væri að prófa svona "steik" um helgina.

Innbakaður grænmetishleifur með púrtvínssósu


  • 450gr kjúklingabaunir (ca 2 dósir, án vökvans)
  • 1 tsk þurrger
  • 150 gr saxaðir valhnetukjarnar
  • 150 gr brauðrasp (ég nota bara úr pakka)
  • 1 laukur, smátt skorinn
  • 100 gr sveppir
  • 50 gr gular baunir
  • 2 - 3 msk púrtvín eða sherrí (ég nota púrt)
  • 2 msk grænmetissoð (ég hef reyndar notað um 4msk, annars svo þurrt)
  • 1 msk ferskur koríander
  • salt og pipar
  • 225 smjördeig, í Nóatúni/Hagkaup hef ég fengið það í heilu lagi
  • 1 egg
  • 2 msk mjólk
Sósa
  • 2 msk matarolía, td. rapsolía
  • 1 púrra, þunnt sneidd
  • 8 msk púrt (má nota sherri)
  • 3 dl grænmetissoð

Blandið saman í matvinnsluvél, baunum, geri, valhnetum og brauðraspi, í 30-60 sek. Brúnið lauk og sveppi á stórri pönnu eða í potti, í 3-4 mín. Bætið út í baunablöndunni á pönnuna og svo einnig maís og hvítlauk. Bætið út í víni, soði og kóríander, blandið öllu saman. Takið af hellu og látið kólna. Breiðið út smjördeigið, myndið hleif úr blöndunni og þjappið henni vel saman, leggið hana inni í smjördegið og lokið undir, bleytið gjarnan þar sem þið lokið smjördeginu. Stingið göt í deigið. Blandið eggi og mjólk, penslið hleifinn og skellið inn í 200 gráðu heitan ofn og bakið í um 30-40 mín eða þar til deigið hefur tekið á sig fallegan lit. Til að gera sósuna, hitið olíuna í potti, brúnið púrru í um 5 mín. Bætið í víni g soði, fáið upp suðu og látið svo "simmer"(hvað er orðið) í 5 mínútur.
Berið fram með dásamlegu meðlæti og njótið!

No comments: