Monday, April 9, 2012

Smalabaka a la grænmetis..




Fjölskyldan ákvað að skella sér á Aldrei fór ég suður á Ísafirði yfir páskana. Gistum á Suðureyri, svo huggulegt og ásamt því að sækja hátíðina góðu þá skelltum við okkur m.a. í kaffi á Þingeyri, börn og eiginmaður skelltur sér til Bolungarvíkur, Diljá vinkona átti afmæli, ég átti afmæli og við hittum fullt af skemmtilegu fólki. Takk fyrir okkur og vonandi áttu allir gleðilega páska. Í einhverju af fjölmörgum samtölum helgarinnar var talað um Shepards pie eða smalaböku. Ákvað að útbúa grænmetisútgáfu.

Skoðaði netið í hugmyndaleit og má segja að þessi sé upp úr þremur útgáfum, þ.e. mér leist ágætlega á hluta af hverri og blandaði svo saman í mína eigin útgáfu. Þetta var bara mjög gott og hressandi að fá sér grænmeti og linsubaunir eftir pizzur, samlokur og annað hressandi fyrir vestan.


Smalabaka a la grænmetis
..
  • 2 dl grænar linsur
  • 3 stórar kartöflur
  • 1 dl nýmjólk eða rjómi.
  • 1/2 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 dallur sveppir (svona eins og fást í búðum)
  • 1/2 lítið brokkólíhöfuð, skorið frekar smátt.
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk salvia
  • 1/4 tsk múskat
  • 2 msk tómatpaste
  • Salt og pipar
Skolið linsurnar og látið í potn, hellið yfir 5,6 dl af vatni yfir, fáið upp suðu og látið svo malla í 30-40 mínútur, þess vegna mikilvægt að byrja á þessu. Skrælið og skerið kartöflur í meðal bita, fáið upp suðu, ætli þetta taki ekki um 10 mínútur, passa bara að þær verði ekki of mjúkar. Látið ofninn á 200 gráður.

Lét svo linsur í sigti, svo aftur í pottinn þegar vatn var runnið af. Steikti í smá smjöri og ólífuolíu laukinn, hvítlauk, svo eftir smá stund brokkolíið og sveppina þangað til sveppirnir hafa mýkst.
Hellti svo þessari blöndu saman við linsurnar, bætti kryddinu út í (oregano, salvíu og tómatpaste), einnig slatta af salti og pipar. Smakkið endilega blönduna, á að smakkast góð svona eintóm.

Hellið vatni af kartöflum, skellið smjörklípu út í, lét örugglega um 2 msk. Helli múskat í. Hrærið rólega í og hellti svo 1 dl af nýmjólk út í , hrærði svo með þeytara þangað til silkimjúkt. Kannski ég láti líka örlítinn sykur eða smá agave næst út í hræruna, svo gott að fá sætt á móti söltu.
Skellið svo linsublöndunni í olíusmurt form, jafnið út, látið svo kartöflumúsina yfir. Ég ákvað að nota svona sprautupoka til að fá fallega toppa. Hafið inni í ofni í 20-30 mínútur eða þangað til kartöflumúsin/topparnir taka á sig brúnan lit. Ég reif smá paramesan yfir. Gott að bera fram með góðu salati.

No comments: