Monday, November 4, 2013

Yljandi vetrarsúpa

   























Þessi súpa er kannski ekki sú fallegasta í augum allra, þó ég sé reyndar sjálf mjög hrifin af svona gamaldags "frönsk sveitarsúpa" útliti. Fæ reglulega mikla löngun eða "craving" í súpu með grænum linsum og grænu grænmeti. Slíkt er stútfullt af járni og öðru góðgæti. Á alltaf frosið spínat og er búin að finna eitt einstaklega gott í Víði, sem er laust í sér en ekki svona hnullungar og er því þægilegt að nota líka í smoothies og svona. Notaði alveg 3 l af grænmetissoði svo notið stærri pott. Er búin að vera dugleg í að gera nóg svo jafnvel afgangur verði sem fer í frystinn eða með í vinnuna daginn eftir.  Ég nota stundum töfrasprota á hluta af súpum sem ég geri til að gefa krökkunum en svo getur líka verið gott að taka smá hluta til hliðar og mixa og láta aftur út í, vilji maður þykkari súpu en samt með grænmetisbitum í.

Var svo kallt og hnerrandi í allan dag, ekki frá því að súpan hafi hresst mig við. Langaði ekki í brauð með en súrdeigsbrauð væri örugglega dásamlegt með.

Yljandi vetrarsúpa

3 sellerístilkar
3 gulrætur
3 hvítlauksrif
1 stór kartafla
Lítill brokkólíhaus
3 dl frosið spínat 
2 dl grænar linsur
3 l grænmetissoð
2 msk rifið engifer
2 msk cumin
2 tsk korianderduft
2 lárviðarlauf
2-3 msk sítrónusafi
Hrein jógúrt
Slatti af salt og pipar

Útbúið soðið. Skerið allt grænmeti í þægilega bitastærð. Hitið olíu í potti, skellið hvítlauknum, skornum eða krömdum útí. Hitið í ca. mínútu og skellið sellerí, gulrótum, kartöflum, brokkólí, spínati og linsum út í, hrærið og hitið í ca. 2 mín. Hellið yfir engiferi,cumin og kóríanderdufti, hrærið. Leggið lárviðarlauf yfir blönduna og hellið svo soðinu yfir. Fáið upp suðu. Leyfið þessu að sjóða í smá tíma, 3-5 mín. Látið slatta af sjávarsalti, ferskan pipar og sítrónusafann útí og lækkið svo hitann. Svona súpa þarf helst að mínu mati að fá að malla í klukkutíma minnst til að fá í sig meira bragð. Smakkið til, mjóg ólíkt hversu mikið salt hentar. Eins mæli ég með sítrónusneiðum, salti og pipar á borðið svo hver og einn geti aðeins bragðbætt fyrir sinn eigin smekk. Ég notaði smá hreina jógúrt yfir sem var mjög gott. 
Þessi súpa er með svona frönsku ívafi en svo er hægt að breyta henni með því einu að láta ferskan kóríander í sem gefur meira asískt ívaf.

No comments: